Rangá.is

thvera_002

Sumarið 2010 tók Veiðifélag Eystri-Rangár við Þverá en Veiðifélagið hefur alið laxaseiði þau sem hefur verið sleppt í Þverá undanfarin ár. Vonast er til að aðkoma Veiðifélagsins auki laxagengd í Þverá eins og raunin hefur orðið í Affallinu í sumar. Seiðasleppingar voru stórauknar í sumar í Þverá og var sleppingin liðlega tvöfölduð úr 20 þúsund seiðum í 40 þúsund seiði.

Frá upptökum til ósa

Þverá í Fljótshlíð er samsafn áa í Fljótshlíð sem saman mynda Þveránna. Allar eiga þær upptök sín á heiðunum ofan við Fljótshlíðina og eru að uppistöðu lindár með dragáreinkennum. Þeirra helstar eru;

Bleiksá er veitt sem stendur út í Markarfljót en rann áður með vesturkvíslum Markarfljóts út í Þverá. Þeirri leið var lokað með varnargarðinum við Háamúla á miðri síðustu öld. Bleiksá er hrein lindará með um 2 m3/sek. rennsli.

Merkjá má nú heita vera upptakakvísl Þverár og rennsli um 1,5 m3/sek. Í Merkjánni er hinn þekkti Gluggafoss. Merkáin er nær hrein lindá og köld.

Litla-Þverá áin sem gefur Þveránni nafn sitt um 0,5 m3/sek. og er meiri dragá en Merkjáin og hlýrri. Litla-Þverá er mjög grýtt og hefur talsvert uppeldisgildi fyrir sjóbirting.

Grjótá er svipuð Litlu-Þverá um 0,5 m3/sek. og rennur í Kvoslækjará.

Kvoslækjará er líka svipuð Litlu-Þverá og Grjótá en er bæði hlýrri og stærri um 1,5 m3/sek við ós í Þverá eftir að Grjótá rennur í hana.

Fróðsstaðalækur er um 0,25 m3/sek. og sameinast Þverá rétt ofan brúar á þjóðvegi 1.

Stóri-Skrurður er framræsluskurður sem fellur til Þverár nokkrum km. ofan óss við Eystri-Rangá og er um 0,25 m3/sek. Skurðurinn þurrkar mýrar sunnan og austan við Hvolsvöll og austur að Fljótshlíð.

Við ós í Eystri-Rangá er Þverá orðin um 4 m3/sek. og er veiðisvæðið að Efri-Þverá um 20 km að lengd. Þar sem Þverá er að stofni til lindá er vatnsmagn hennar mjög stöðugt

Varnargarðurinn

Við byggingu varnargarðsins við Háamúla um 1950 var megnið af vatnsmagni Þverár þá veitt í Markarfljót. Við það var eftir mjög víður farvegur sem var ekki fiskgengur nema í haustrigningum.

Það var um 1995 sem 2 bændur við Þverá Markús heitinn Runólfsson í Langagerði og Jón heitinn Bjarnason í Dufþaksholti ásamt fleirum höfðu forgöngu um að þrengja að ánni með varnargörðum og gera ána þar með fiskgenga. Þetta bar þann ávöxt að 1997 veiddust fyrstu laxarnir í Þverá.

Laxveiði

Fyrrum var talverð sjóbirtingsveiði í Fljótshlíðarlækjunum sem saman mynda Þverána en þá runnu vesturkvíslar Markafljóts í Þverána sem þá var jökullituð og óveiðanleg. Æ síðan hefur verið þokkaleg laxveiði í Þverá flest árin á bilinu 100-200 laxar og slæðingur af sjóbirting.

Veiðinni hefur verið haldið uppi með sleppingun um 20 þúsund laxagönguseiða á ári sem hefur verið sleppt 4 sleppitjarnir vítt og breitt um ána.