Rangá.is

affall_003

Í þessari veiðistaða- og aksturslýsingu er alltaf talað um höfuðáttirnar, norður, suður, austur og vestur, jafnvel þótt það sé ekki alltaf rétt. Norður er þá upp eftir ánni í átt til fjalla, suður niður með henni í átt til sjávar, austur í átt að Eyjafjöllum og vestur er þeim megin árinnar sem Bergþórshvoll stendur.

Veiðistaðalýsing

Veiðistaðalýsingin og númer veiðistaðanna taka að langstærstum hluta mið af því að hægt sé að komast nálægt þeim akandi. Hins vegar eru fjölmargir fallegir staðir á milli merktra veiðistaða og því vel þess virði að ganga á milli þeirra og kanna ómerkta staði, sé fólk þannig stemmt. Stöku sinnum eru staðirnir taldir upp í öfugri röð og er það þá vegna þess hvernig ekið er að þeim.

Brýnt er fyrir veiðimönnum að aka aðeins eftir skýrum slóðum og ekki utan þeirra. Ennfremur að loka vel öllum hliðum sem farið er um og hafa auga með bílum sínum þar sem engin ábyrgð er borin á því ef þeir verða fyrir skemmdum af völdum búpenings.

Affallið er á Söguslóð Njálu og bera nafngiftir sumra veiðistaðanna þess glögg merki.

Veiðistaðir 1 – 11

Hér er lýsingin miðuð við að byrjað sé ofan við sleppitjörnina # 10, niður undan brúnni yfir Affallið við Bergþórshvol. Austan við brúna er afleggjari til suðurs sem merktur er Hallgeirsey. Hann er ekinn stuttan spöl, ca 100 metra, þar er hlið á hægri hönd sem ekið er um. Slóðinn liggur niður á austurbakkann og er ekið að sandhólum þar sem er sleppitjörn.

# 1. & 2. „Hallgeirseyjarhylur“.
Haldið áfram til suðurs að næstu beygju þar sem aftur taka við nokkrir samfelldir veiðistaðir. Þarna er rétt að fara alveg niður í ármótin.

Þarna eru t.a.m. tvær langar rennur undir A-bakka og strengur undir V-bakka.

# 3, 4 & 5.
Farið er til baka, upp á þjóðveg og hann ekinn til suðurs þar til farinn er afleggjari á hægri hönd, rétt áður en komið er að blindhæðinni sem er þarna á veginum. Slóðinn er ekinn spölkorn til vesturs og svo beygt til suðurs, farið yfir lítinn læk og ekið niður með ánni þar til komið er að # 5. Það er akfært að #4 en eftir það þarf að fara gangandi.

Áin liggur þarna í bugðum og má segja að # 3 – 5 sé einn samfelldur mögulegur veiðistaður. Þarna er t.d. djúp hola undir V-bakka, löng beygja undir A-bakka, og önnur djúp hola undir V-bakka við litla sandeyju.

# 6. „Kjóahylur“.
Veiðistaðir # 1 – 6 eru líklegastir til að gefa þegar fiskur er í göngu. Til að komast að # 6 er slóðinn ekinn áfram, suður fyrir sandhóla á vinstri hönd. Þegar honum sleppir er stuttur gangur í #6. Þar undir vesturbakka er löng veiðileg renna.

# 7, 8 & 9.
Ofangreindur slóði er ekinn áfram til suðurs, fram með litlum hól og sjást þá skiltin.

Þarna eru rennur meðfram holbökkum beggja vegna þar sem stundum leynist fiskur. Einnig er djúpur pollur undir austur-bakkanum, efst við hólinn.

# 10. „Njáll“ (neðri sleppitjörn).
Neðan við grjótgarð er sterkur straumur og þar niðurundan falleg breiða. Þetta er númer 10, einn af gjöfulli stöðum Affallsins. Staðurinn breytir sér nokkuð milli ára en þarna getur legið fiskur efst í hvítfyssinu og langt niður á breiðuna beggja vegna. Þetta er dæmigerður maðka- og sökkustaður en þó eru mörg dæmi um að menn hafi náð þarna fiski á flugu einnig.

 

# 11.
Hér er um að ræða breiðuna ofan við # 10, meðfram sleppitjörninni.

 

 

Veiðistaðir 12 – 20

Farið er vestur yfir brúna yfir Affallið við Bergþórshvol og ekið niður slóða af veginum, áður en komið er að grindahliði. Slóðinn liggur beint að númer 15.

# 12.
Er hylurinn undir brúnni.

# 13.
Er undir austurbakka.

# 14. „Bergþóra“.
Neðan við # 15 kvíslast áin um malareyju. Þar sem hún rennur saman að nýju getur legið fiskur undir austurbakka og langt niður á fallega breiðu sem er þar fyrir neðan.

# 15. „Kárapollur“.
Hér getur fiskurinn legið í hyl sem er undir grastorfu á austurbakka og síðan niður með vesturbakkanum, alveg frá því áin beygir til austurs og niður að grynningunum við malareyjuna sem nefnd er í # 14.

Nú er annaðhvort ekið eftir slóðanum upp með ánni, eða gengið með árbakkanum þar til komið er að 16 og 17. Einnig má aka beint upp í 19 og ganga þá þaðan í 16, 17 og 18.

# 16.
Undir austurbakka er fallegur hylur.

# 17.
Hér er fallegur hylur undir föllnum austurbakka.

Slóðinn er ekinn áfram til norðurs þar til ekið er fram á veiðistað # 19 – 20. Héðan er einnig hægt að  ganga að veiðistöðum # 18 og 21 – 22.

# 18. „Skarphéðinn“.
Þarna er hylur við horn vestanmegin og renna þar fyrir neðan.

# 19. „Símastrengur“.
Hér þarf að fara varlega að. Þetta er góður staður þar sem fiskurinn getur legið undir bakkanum að vestan en einkum í strengnum þar sem áin rennur saman eftir að hafa kvíslast þarna um eyju og áfram niður á breiðuna.

# 20. „Reddarinn“.
Undir bakkanum austan megin, áður en áin kvíslast um eyjuna, er djúp renna við austurbakkann sem endar í djúpri holu við grasnefið. Langur og góður hylur.

# 20 ½ „Berglind“. (Ómerktur).
Í beygjunni ofan við „Reddarann“ er langur djúpur hylur undir bakkanum vestanmegin þar sem fiskur getur legið. Hann er ómerktur.

Veiðistaðir 21 – 29

Nú er ekið til baka, austur yfir brúna og norður eftir þjóðvegi # 252. Þegar komið er norður fyrir Syðri-Úlfsstaði er slóði niður af veginum vestan megin (þar hefur jafnan verið stór stæða af rúlluböggum). Til að komast að veiðistöðum 21. – 23. er tekinn slóði til suðurs á móts við rafmagnsstaur. 

Til að komast að öðrum veiðistöðum er ekið beint til vesturs, niður að ánni og svo norður með henni í átt að Efri-Úlfstöðum. Þarna eru nokkrir merktir veiðistaðir en einnig ómerktar holur og rennur sem er þess virði að renna í.

# 21. „Danskurinn“.
Undir austurbakkanum, neðst í beygjunni og þar áfram, er djúp renna.

# 22.
Hola undir austurbakka.

# 23.
Undir talsvert brotnum vesturbakkanum.

# 24.
Undir bakkanum vestanmegin er renna alveg niður undir nefið á oddanum sem þarna er.

# 25.
Er hola undir austurbakka.

# 26.
Er renna undir austurbakka.

# 27.
Þarna er djúp renna undir austurbakkanum.

# 28. „Úlfsstaðahylur“.
Er í raun nýr hylur undir vesturbakka sem lítið hefur enn reynt á.

# 29. „Skegglaus“.
Er líka nýr hylur. Falleg djúp renna með vesturbakkanum.

Veiðistaðir 30 – 33

Nú er ekið til baka og aftur upp á þjóðveg þar til nálgast Sléttuból. Þar er ekið út af veginum inn á slóða til norðurs og bílnum lagt beint niður undan húsunum á bænum. (Það er út af fyrir sig hægt að nálgast # 25 – 29 líka af þessum slóða og er hann þá ekinn til suðurs í átt að Efri-Úlfsstöðum.)

# 30.
Þarna er renna undir vesturbakka, með eyri í ánni, neðan við beygjuna í # 31.

# 31. „Sléttuból“.
Þetta er fallegur staður og hefur oft gefið vel. Undir vesturbakkanum er löng djúp renna og nær veiðistaðurinn alveg niður á breiðuna þar fyrir neðan. Þarna er hægt að kasta flugu af vesturbakkanum en einnig hægt að standa vel ofan við hylinn á austurbakkanum og renna þá niður á hann.

# 32. „Hjartaslag“.
Þetta er löng, djúp renna undir vesturbakka. Þarna er byrjað ofarlega, skammt niður undan beygjunni þar sem áin beygir til austurs og alveg niður að grynningunum ofan við # 31. Þarna er holbakki þar sem oft leynist fiskur.

# 33.
Renna undir vesturbakka.

Veiðistaðir 34 – 38

Nú farið til baka upp á þjóðveg # 252 og ekið norður eftir honum þar til komið er að vegamótum á vinstri hönd, skammt ofan við skemmu sem þarna stendur. Þar er beygt inn á veg # 2489 og hann ekinn til norðurs smáspöl þar til komið er að slóða á vinstri hönd. Eftir honum er ekið með stefnuna á sandhóla sem þarna eru. Þarna er hægt að villast á slóðum en rétt leið hefur verið valin þegar gamlar vélar eru manni á hægri hönd, þaðan er komist niður að árbakkanum. Fljótlega ætti þá dökkur vesturbakkinn að blasa við en þar undir er „Flosi, númer 35. 

# 34.

Þarna er falleg renna undir austurbakka, skammt niður undan „Flosa“.

# 35. – 36. „Flosi“.
Hann þekkist af háum, brotnum, löngum, vesturbakka. Áin rennur þarna til suðurs en sveigir svo til austurs. Ofarlega undir bakkanum er veiðileg renna og í og við beygjuna neðst undir honum er falleg renna og djúp hola í henni.

# 37.
Renna undir austurbakka.

# 38.
Renna undir austurbakka.

Veiðistaðir 39 – 40

Nú er best að aka til baka, aftur á þjóðveg # 2489 og halda áfram til norðurs meðfram grónu stykki, þar sem áður var kartöflugarður. Við endann á því er númer 39. Niður undan honum eru fallegir ómerktir staðir sem er þess virði að ganga að, t.a.m. efst og neðst við eyju í ánni. Við suðurenda hennar er djúpur hylur sem trúlega er best að veiða af eyjunni en við norðurendann best að veiða af landinu.

# 39. „Kartöflugarðurinn“.
Þetta er mjög álitlegur staður sem oft geymir fisk. Þarna er bæði hægt að sjónrenna maðki ofan úr brekkunni af austurbakkanum en skemmtilegra að vaða yfir á vesturbakkann ofan við staðinn og kasta þaðan á hann hvort sem er flugu eða maðki. Þarna er djúp hola efst við hornið austanmegin og svo löng renna alveg niður á breiðuna.

# 40.
Er löng falleg renna undir austurbakka sem byrjar í beygjunni ofan við # 21 og nær vel í áttina að honum. Einnig eru djúpar holur undir vesturbakkanum.

Veiðistaðir 41 - 44

Áfram er ekið eftir þjóðveginum, smáspöl til norðurs að næsta slóða til vesturs og svo upp með ánni. Af þessum slóða er hægt að nálgast veiðistaði 41 – 44 og jafnvel hægt að ganga alveg upp í númer 48, þótt þægilegra sé væntanlega að taka hann frá næsta afleggjara sem lýst er hér síðar.

# 41.
Er renna undir austurbakka.

# 42.
Er renna undir austurbakka.

# 43.
Er renna undir vesturbakka.

# 44.
Er djúpur hylur við moldarbakka austanmegin þar sem girðing nær fram á bakkann.

Veiðistaðir 45 - 49

Áfram er ekið til norðurs framhjá sumarbústað á vinstri hönd og heitir sá Smiðjukot. Þegar nálgast Kanastaði er farið um hlið á vinstri hönd, nánast á móts við heimreiðina að bænum. Þarna er annars vegar hægt að fara til suðurs með stefnuna á fyrrnefndan bústað og þar í gegnum hlið. Með því nálgast maður veiðistaði #44 – 51.  Einnig er hægt að fara beint af augum og þá að veiðistöðum #52-56.

Þegar komið er gegnum hliðið er slóðinn ekinn í átt að ánni þar til hann greinist. Farið er til vinstri til að nálgast 44-49 en beint af augum til að fara að 50-51

# 44.
Hefur áður verið lýst.

# 45.
Er djúpur hylur undir austurbakka.

# 46.
Er fallegur hylur undir vesturbakka á móts við sandeyri sem þarna er.

# 47. „Erluhylur/Grafarbakki“.
Þarna er komið akandi fram á bakkann, sem áður sagði og eru veiðistaðirnir, sem eru í rauninni tveir, undir austurbakkanum. Þetta er fallegur staður, byrjar í djúpri holu (Erluhyl) og endar í fallegri rennu undir grasbakka. Nær alveg niður á breiðuna.

# 48.
Er í beygjunni ofan við númer 47, djúp renna undir vestur-bakkanum.

# 49.
Djúp renna undir austur-bakkanum.

Veiðistaðir 50 - 56

Til að fara að númer 50-51 er farinn til baka sami slóði og komið var, þangað sem hann kvíslast og hann þá tekinn áfram til vesturs og norðurs upp með ánni, með stefnu á ána. Þarna skammt fyrir ofan er komið að girðingu og þar verður annað hvort að skilja við bílinn til að komast að allt upp í 56 eða fara til baka, gegnum hliðið sem áður var komið og beygja þá strax til vesturs, slóða sem þar er. Hann liggur alveg upp að #56. (Ef vill er svo vel hægt að ganga þaðan upp í Kanastaðahyl/Sleppitjörn #60).

# 50. „Tengdapabbi“.
Þetta er langur fallegur hylur sem byrjar í rennu undir sandbakka austanmegin. Neðst við bakkann er djúp hola og svo langur hylur þar niðurundan, alveg niður á breiðuna.

# 51. „Stálmúsin“.
Þarna er renna undir bakka vestanmegin, niður undan eyju í ánni.

# 52.
Undir háum bakka vestanmegin er falleg renna.

# 53.
Renna undir austurbakka.

# 54.
Renna undir vesturbakka.

# 55.
Renna undir vesturbakka.

# 56.
Renna undir austurbakka.

Veiðistaðir 57 - 61

Nú er farið til baka upp á veg # 2489 og þaðan áfram til norðurs, framhjá Kanastöðum, þar til komið er að næsta bústað á vinstri hönd. Stuttu seinna er hlið á girðingunni og er farið þar um. 

Til að komast að # 60 „Kanastaðahylur“ (efri sleppitjörn) er slóðinn tekinn til suðurs þar sem hann kvíslast og ekið fram á malarkamb. Þarna hafa talsverðar framkvæmdir átt sér stað svo staðurinn leynir sér ekki.

# 57.
Er u.þ.b. miðja vegu milli #56 og #58 og þar með svolítill gangur í hann.

# 58.
Er hylur í næstu beygju við #58 undir vesturbakka þar sem áin beygir til suðurs.

# 59.
Er hylur í næstu beygju fyrir neðan Kanastaðahyl, þar sem áin beygir til vesturs.

# 60 „Kanastaðahylur“ (efri sleppitjörn).
Þarna er þrenging í ánni og töluverður „hávaði“. Þetta er dæmigerður maðkastaður, fiskurinn getur legið undir hvítfyssinu og alveg niður á breiðuna. Þarna er djúpt. Fiskurinn getur líka legið í sleppitjörninni sjálfri og gengið út og inn úr henni á víxl.

# 61.
Ofan við sleppitjörnina er renna undir austurbakka.

# 62.
Er í næstu beygju ofan við númer 61 og í göngufæri. Þarna er hylur undir vesturbakka, neðan við girðinguna.

Veiðistaðir 63 – 66

Til að fara að númer 63 – 65 er ekið til baka en slóðinn síðan tekinn til norð-vesturs í átt að sandhólum sem þarna eru. Þar er farið yfir lítinn læk og áfram í átt að ánni. Ekið er að stiga yfir girðinguna og bíllinn skilinn þar eftir.

# 63. „Langibakki“.
Þegar komið er yfir stigann er gengið til suðurs (vinstri). Veiðistaðurinn er í neðri hluta beygju undir austurbakka, að eyju sem þarna er í ánni.

# 64. „G-strengur“.
Er nánast beint fram af stiganum. Þetta er mjög fallegur staður og langur, sem byrjar nánast efst í beygjunni í rennu undir vesturbakka. Á hana borgar sig að byrja á því að kasta en varast að styggja það sem er þarna fyrir neðan. Fara síðan yfir ána á grynningunni og kasta á allan austurbakkann, niður fyrir næstu beygju.

# 65. „Ossabæjarhylur“.
Frá G-streng er gengið norður með ánni. Ossabæjarhylur er neðarlega í beygjunni, undir grasbakkanum að austanverðu.

# 66. „Gleym-mér-ei“.
Hér er renna undir austurbakka.

Veiðistaðir 67 – 75

Enn er farið til baka upp á veg # 2489, hann gengur svo inn á þjóðveg # 253, skammt austan við Voðmúlastaði. Þar er beygt til norðurs (vinstri) og ekið að vegamótunum á þjóðvegi # 1. Þar er beygt til vesturs (vinstri), farið fyrir brúna yfir Affallið og eknir 2-300 metrar þar til kemur afleggjari á vinstri hönd, þar er pípuhlið. 

Þarna er um tvo slóða að velja. Annar gengur til austurs, að stiga sem liggur yfir girðinguna. Þar er farið til að veiða staði númer 71 – 75. Hinn gengur nánast beint til suðurs og eftir honum má nálgast staði númer 67 – 70. Svolítill gangur er að öllum þessum stöðum.

Einnig er hægt að skilja bílinn eftir utan þjóðvegar nærri brúnni, byrja þá á Brúarhyl, ofan brúar og veiða sig svo niður úr.

Þegar þetta er skrifað er það sem eftir er árinnar ómerkt. Hins vegar á að vera tiltölulega auðvelt að finna eftirfarandi staði. 

# 67 – 70.
# 67 (67, 68 og 69 eru nánast einn samfelldur veiðistaður)

Þarna er eyja í ánni og bæði ofan við hana og neðan eru mjög veiðilegar rennur.

# 68 „Grjóthylur“.
Þetta er djúpur hylur eftir brot vestanmegin og nær alveg að næstu beygju.

# 69 „Berjanesshylur“.
Byrjar neðan girðingar austanmegin. Mjög löng renna.

# 70 „Rörið“.
Er aðeins norðar en hinir þrír. Hann þekkist af steyptu röri í botni. Þarna er djúpur og fallegur hylur.

# 71 – 75.
Hér er, eins og áður sagði, farið yfir girðinguna á stiga og stefnan svo tekin beint á ána, þar sem við blasir hár moldarbakki, austan-megin. Á þessu svæði, alveg upp að brú, eru margar fallegar beygjur, rennur og pollar sem er vel þess virði að renna yfir þótt ekki séu sérstaklega merkt.

# 71 „Straumur“.
Undir moldarbakkanum að austanverðu er fallegur hylur en ekki síður er góð renna þarna fyrir ofan og þá undir vesturbakkanum.

# 72.
Þarna er löng, djúp renna meðfram girðingu á vestur-bakka.

# 73.
Þarna eru tveir djúpir hylir.

# 74.
Þarna er djúp renna undir vesturbakka.

# 75 „Brúarhylur“.
Rétt ofan við brúna austanmegin og undir henni, er fallegur hylur. Ef sett er í fisk ofan brúar þarf að varast girðingu sem liggur ofan í ánni, missi maður hann niður fyrir hana er viðureigninni væntanlega lokið, með sigri laxins.

Strax neðan brúar er einnig falleg breiða þar sem fiskur getur legið.

Veiðistaðir 76 – 77 

Farið er að nýju upp á þjóðveg og ekið stuttan spöl til austurs þar til kemur að vegslóða á vinstri hönd og hann ekinn til norðurs. Efsti merkti staðurinn, númer 77 er niður af sandhólum sem þarna eru. Bæði ofan hans og neðan eru fallegar beygjur með holum og rennum, sem gæti verið vel þess virði að renna, einkum síðsumars og á haustin.

# 76.
Þarna er djúp renna undir austur-bakka, neðan beygju og þekkist af steypuklumpum í botni.

# 77.
Djúpur hylur við austurbakka.

Veiðistaðir 76 – 77

Farið er að nýju upp á þjóðveg og ekið stuttan spöl til austurs þar til kemur að vegslóða á vinstri hönd og hann ekinn til norðurs. Efsti merkti staðurinn, númer 77 er niður af sandhólum sem þarna eru. Bæði ofan hans og neðan eru fallegar beygjur með holum og rennum, sem gæti verið vel þess virði að renna, einkum síðsumars og á haustin.

# 76.
Þarna er djúp renna undir austurbakka, neðan beygju og þekkist af steypuklumpum í botni.

# 77.
Djúpur hylur við austurbakka.